Alþjóðleg miðstöð rannsókna á hreyfitauga sjúkdómum International Center for Research on Motor Neuron Diseases ICRon-MND
|
Hreyfitauga sjúkdómar og batahorfur MND-sjúklinga.
Birtist fyrst í 20 ára afmælisblaði MND-félagsins 20. febrúar 2013.
Loftur Altice Þorsteinsson. Hreyfitauga sjúkdómar (MND) er samheiti yfir sjúkdóma, sem eiga það sameiginlegt að hreyfitaugar visna eða missa fulla virkni, með þeirri afleiðingu að viljastýrðir vöðvar líkamans hætta að starfa eðlilega. Um er að ræða margvísleg sjúkdómseinkenni og greindar hafa verið margar orsakir. Í alvarlegustu afbrigðum MND visna vöðvarnir, þegar hreyfitaugarnar bera þeim ekki lengur rafboð frá heilanum. Í öðrum afbrigðum verða vöðvarnir stífir og taugaviðbrögð hörð og ósjálfráð, þrátt fyrir að heilinn haldi sambandi við vöðvana. Sem dæmi um þessi mismunandi afbrigði MND (motor neuron disease) má nefna ALS (amyothophic lateral sclerosis) og PLS (primari lateral sclerosis). Sjúklingum sem greinast með MND verður fljótt ljóst, að sjúkdómur þeirra er talinn vera ólæknandi, versna stig af stigi og vera banvænn. Meðaltölin eru ekki uppörvandi, en þegar farið er að skoða málið ofan í kjölinn, koma í ljós staðreyndir sem gefa meðaltölunum langt nef. Fólk upplifir sig ekki sem meðaltöl, heldur sem sérstaka einstaklinga í sínum sérstöku kringumstæðum. Þeir sem ekki falla fljótt fyrir sjúkdómnum, geta gert sér vonir um að lifa lengi með honum, þótt batahorfur séu vissulega ennþá litlar. Hægt er að benda á, að frá því að fyrstu einkenni koma í ljós lifa um 40% sjúklinga lengur en 5 ár, um 20% lifa lengur en 10 ár og um 10% sjúklinga lengur en 20 ár. Jafnvel »kraftaverk« geta skeð, því að hjá um 5% sjúklinga virðist sjúkdómurinn fjara út, að því marki að hann nær ekki útbreiðslu til allra viljastýrðra vöðva. Þegar bætist við, að rannsóknir á MND eru víða um lönd stundaðar af kappi, er ekki gefið að MND-sjúklingar gefi sig á vald örvæntingar. Lífslengd sjúklinga með MND er þannig ákaflega mismunandi og sama á við um einkenni sjúkdómsins, að þau eru margbreytileg. Þessi breytileiki stafar af því að MND er ekki einsleitur sjúkdómur, heldur hefur mörg birtingarform. Hann er talinn stafa af stökkbreytingu í genum sem stjórna gerð og starfsemi mismunandi prótína í hreyfitauga-kerfi sjúklinga. Stökkbreyttu prótínin er að finna í heilaberki og mænu. Veikindin birtast síðan í hrörnun hreyfitauganna: a) efri hreyfitauga, sem liggja frá heilaberki niður mænuna og b) neðri hreyfitauga, sem liggja frá mænunni út í viljastýrða vöðva í fótum, bol, höndum og höfði. Þótt hreyfitauga-frumur hjá MND-sjúklingum verði hrörnun að bráð, er ekki ljóst hvað veldur þessari hrörnun. Einn möguleiki er að orsökin sé orkuskortur hjá hreyfitaugunum og að þær verði þess vegna ófærar að flytja boð að og frá viljastýrðu vöðvunum. Vitað er að svo nefndar stjörnufrumur (astrocytes), sem finnast í taugakerfinu, gegna meðal annars því verkefni að bera hreyfitaugunum orku. Stjörnufrumurnar tengjast bæði blóðæðum og hreyfitaugum og breyta orku-ríkum glúkosa (glucose) úr blóðinu í mjólkursýru (lactate) sem þær færa hreyfitaugunum. Rannsóknir hafa sýnt að stökkbreytt SOD1 í stjörnufrumunum kemur við sögu í MND og hugsanlega veldur það röskun á orkuflutningi til hreyfitauganna.
Skýringarmynd af hreyfitauga-kerfinu. Efri hreyfitaugar (Upper motor neurons) liggja frá hreyfisvæðinu (primary motor cortex) á heilaberki manna, niður mænuna, þar sem neðri hreyfitaugar (Lower motor neurons) taka við boðum sem berast út til vöðvanna. Hreyfitaugarnar lifa í sambýli við nokkrar aðrar frumur og þar á meðal stjörnufrumur (astrocytes).
Skýringarmynd af orkubúskap hreyfitauga. Stjörnufrumur (astrocytes) sækja orkuríkan glúkósa (glucose) til blóðæðar (capillary) og eftir umbreytingu miðlar mjólkursýru (lactate) til hreyfitaugafrumu (motor neuron). Truflun á þessu ferli er hugsanlega orsök MND, en sannanir á tilgátunni skortir ennþá.
Skilgreining hreyfitauga sjúkdóma. Um 150 ár eru síðan hreyfitauga sjúkdómar voru skilgreindir og þeim gefin nöfn. Árið 1830 lýsti Charles Bell veikindum tveggja MND-sjúklinga. Á árunum 1848 og 1850 skilgreindi Francois Aran afbrigði af MND, sem nefnist »progressive spinal muscular atrophy«. Nákvæma lýsingu gaf síðan Jean-Martin Charcot í nokkrum ritgerðum á árunum 1869 til 1881. Á Íslandi kemur MND hugsanlega fyrst fyrir í rituðu máli 1859, þegar Sigurður Sívertsen Brynjólfsson nefnir hálfvisnu í Suðurnesja-annál sínum. MND-sjúklinga er að finna í öllum ríkjum Jarðar og öllum kynþáttum. Tíðni sjúkdómsins er að aukast og á Íslandi greinast núna um 6 á ári og heildarfjöldi sjúklinga er um 30. Af óþekktum ástæðum, greinist sjúkdómurinn hjá fleirri körlum en konum, þrátt fyrir að konur verða nokkru eldri en karlar. Strangt tiltekið eru orsakir MND óþekktar, en rannsóknir hafa leitt í ljós að stærsti greinanlegi áhættu-þátturinn er ættartengsl við aðra MND-sjúklinga. Rannsóknir á fjölskyldum sem greinst hafa með sjúkdóminn, benda til að hann erfist samkvæmt sömu velþekktu reglum og gilda um aðra ættgenga sjúkdóma. Um 10% MND-sjúklinga eru með ættgengt (familial) afbrigði sjúkdómsins og oftast er um að ræða erfða-mynstur sem nefnist jafnkynja ríkjandi (autosomal dominant), sem merkir að stökkbreyting erfist jafnt til beggja kynja og að einungis eitt stökkbreytt gen þarf til að valda sjúkdómnum. MND-sjúklingur með ættgengt afbrigði sjúkdómsins er því venjulega með eitt stökkbreytt gen og annað óbreytt. Barn foreldris með MND hefur þá 50% líkur að erfa hið gallaða gen og jafn miklar að erfa það ekki. Þessi mynd kann að breytast á nærstu árum, vegna þess að stöðugt finnast áður óþekktar stökkbreytingar í genum, sem tengjast MND og víkjandi erfða-mynstur (recessive inheritance) kann að vera algengara en birtist í dag. Ef erfða-mynstrið er jafnkynja víkjandi (autosomal recessive) erfist stökkbreytingin jafnt til beggja kynja, en til að sjúkdómurinn birtist verður sjúklingurinn að hafa erft stökkbreytt gen frá báðum foreldrum. Flestar stökkbreytingar hjá MND-sjúklingum, hafa fundist í geni sem nefnist SOD1 og það forritar prótínið Kopar-Zink Superoxide Dismutase. Þetta prótín er efnahvati (enzyme) og það er að finna inni í öllum frumum líkamans, þar sem það virkar sem kraftmikið andoxunarefni. Við rannsóknir á MND-sjúklingum hafa fundist nær 200 stökkbreytingar í SOD1 og ástæða virðist að ætla, að hverri tegund stökkbreytingar fylgi sérstakt afbrigði sjúkdómsins. Fundist hafa stökkbreytingar í um 20 öðrum prótínum, sem einnig er álitið að orsaki MND. Á Íslandi hefur einungis greinst ein stökkbreyting í SOD1, sem tengja má MND og nefnist G93S. Önnur stökkbreyting nefnist D130E (óbirt heimild) og finnst í geni sem nefnist VAPB. Ástæða þessarar fábreytni er líklega takmarkaðar rannsóknir, fremur en að erfðaefni landsmanna takmarki stökkbreytingar. Sjúkdómsgreining hjá MND-sjúklingi. Þótt einkenni MND fari ekki framhjá neinum, er fullkomlega vísindaleg greining sjúkdómsins samt torveld ef ekki ómöguleg. Ennþá er nálgunin sú að reynt er að útiloka aðra sjúkdóma, sem að einhverju leyti birtast í sömu sjúkdómseinkennum. Það heilræði er hægt að gefa sjúklingum að fá greiningu hjá fleirri en einum lækni og kynna sér sjálfur þá sjúkdóma sem hafa svipuð einkenni og MND. Rangar sjúkdómsgreiningar og seinvirkar er eitt heldsta áhyggjuefni MND-sjúklinga. Vegna þess að orsakir MND eru lítt þekktar og sjúkdómurinn er að flestu leyti flókinn, er mikilvægt fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra að leita sér þeirrar aðstoðar sem læknar og hjúkrunarfólk er fært um að veita. Fyrsti hluti MND-greiningar hjá einstaklingi er fólginn í, að finna út hvort sjúkdómurinn er ættgengur (familial) eða tilfallandi (sporadic). Í ljósi nýrra upplýsinga er þessi flokkun líklega úrelt, en hún getur samt ennþá gefið ákveðnar upplýsingar. Stundum liggur svarið ljóst fyrir, ef vitað er að sjúkdómurinn hefur komið upp hjá nánum ættingum. Ef engin ættarsaga liggur fyrir er talað um tilfallandi (sporadic) orsakir. Hins vegar er raunveruleikinn oftast flóknari og erfiðara verður með hverju árinu að gera skýran mun á milli ættgengs MND og tilfallandi. Það sem í upphafi er flokkað sem tilfallandi MND er oft dulið tilvik af ættgengu MND. Nokkuð öruggt má telja, að ættgengt MND stafar af stökkbreytingu í genum sjúklingsins, sem hann hefur erft frá foreldrum sínum. Venjulega er um að ræða ríkjandi (dominant) erfðir, sem merkir að einstaklingur með stökkbreytt gen frá öðru foreldri sínu, fær nokkuð örugglega sjúkdómseinkenni, fyrr eða síðar. Hins vegar getur verið um að ræða víkjandi (recessive) erfðir og þá hefur sjúklingurinn fengið stökkbreytt gen frá báðum foreldrum. Ef ekki liggja fyrir traustar heimildir um forfeður sjúklingsins og sjúkrasögu ættmenna hans, getur læknum hæglega skjátlast varðandi þessa flokkun. Í öðru lagi getur verið að sjúklingur sé raunverulega með tilfallandi MND, sem varð þá til við getnað þess einstaklings eða síðar á æfi hans. Verið getur að afkomendur sjúklingsins erfi hið stökkbreytta gen og sjúkdómurinn er þá örugglega orðinn ættgengur. Ættgengt MND á sér uppruna í einhverjum einstaklingi, þótt langt kunni að vera síðan sá einstaklingur lifði og hann sé fullkomlega óþekktur. Einnig ber að hafa í huga að engin mismunur hefur greinst hvað varðar sjúkdómseinkenni, á milli ættgengs MND og tilfallandi. Stöðugt greinast nýgjar gerðir stökk-breytinga í genum MND-sjúklinga og oft eru það sömu stökk-breytingarnar sem finnast í báðum flokkum. Þrátt fyrir nokkuð augljós tengsl MND við stökkbreytt erfðaefni, er samt ástæða til að ætla að aðrir þættir hafi einnig áhrif á sjúkdóminn, svo sem umhverfi og lífsmáti fólks. Lækning MND-sjúkdómsins og umönnun sjúklinga. Ennþá hefur ekki fundist lækning við MND og batahorfur eru því engar, ef kraftaverkum er sleppt úr myndinni. Umönnun sjúklinga er því bundin við að gera sambúðina við sjúkdóminn eins þolanlega eins og hægt er. Mörg sjúkdómseinkenni er hægt að milda og viðhalda að einhverju leyti hreyfigetu fólks með hjálpartækjum. MND-teymi Landspítalans annast mikilvægan þátt í umönnun sjúklinga og aðstandenda þeirra. Sérhæft fólk er í teyminu, sem sjúklingar geta leitað til með litlum fyrirvara. Hrörnun MND-sjúklinga er oftast mjög hröð og því er mikilvægt að grípa tímanlega til úrræða sem gert geta gagn, hvort sem um er að ræða lyfjagjöf eða útvegun hjálpartækja. Eitt mikilvægasta verkefni MND-teymisins er, að tryggja að tiltæk úrræði gagnist sjúklingunum sem fyrst og berist þeim ekki um seinan. Ekki er mikil von til að lækning við MND finnist fyrir tilviljun. Ætla verður að fyrst verði að finna upptök sjúkdómsins, síðan komi leit að orsaka-sambandi sem leiðir til visnunar hreyfitauganna og loks rannsóknir til að finna leiðir til að rjúfa orsakasambandið, eða stöðva sjúkdóminn við upptök. Ekki er ennþá hægt að segja með vissu hvar upptök MND er að finna, þótt tilgátur skorti ekki. Hugsanlega geta upptökin verið margskonar, sem valda ákveðnu orsakasambandi sem leiðir til MND sjúkdómseinkenna. Verið er að reyna lækningu með stofnfrumum, lyfjum sem menn vonast til að lækni sjúkdóminn og lyfjum sem hugsanlega gætu bælt starfsemi ákveðinna gallarra prótína, sem gefa frá sér eiturefni. Tilgáturnar eru margar, sem aðkallandi er að fái rannsókn, en fjármunir til MND-rannsókna liggja ekki á lausu. Stofnað hefur verið félag til að vinna að MND-rannsóknum og nefnist það »Alþjóðleg miðstöð rannsókna á hreyfitauga sjúkdómum«. Vonir eru bundnar við að stjórnvöld sjái ástæðu til að veita félaginu fjármagn, svo að það geti sinnt verkefnum sínum. Fjármögnunar verður einnig leitað til einstaklinga og fyrirtækja. Samið hefur verið um samstarf við vísindamenn í Svíþjóð og leitað verður víðar eftir samstarfsmönnum. Fyrstu verkefnin verða meðal annars fólgin í að leita stökkbreytinga hjá MND-sjúklingum á Íslandi og að þróa aðferðir við sjúkdómsgreiningu. Ekki er að vænta lækningar á neinum meinsemdum nema orsakir og framgangur sjúkdómsins sé að fullu ljós. Núna er einstakt tækifæri fyrir Ísland, að koma sterkt inn á vettvang rannsókna á hreyfitauga sjúkdómum. Vísindamenn og aðstaða er fyrir hendi í landinu og samstarf tryggt við erlenda vísindamenn. »Alþjóðleg miðstöð rannsókna á hreyfitauga sjúkdómum« ætlar að ná árangri með rannsóknum sínum.
><<>><
|